Fjölmenni og gleði einkenndi 17. júní á Seltjarnarnesi
Þau heppnuðust svo sannarlega vel 17. júní hátíðarhöldin á Seltjarnarnesi loks þegar halda mátti upp á þjóðhátíðardaginn með pompi og prakt án allra samkomutakmarkana. Hátt í fjögur þúsund manns tóku þátt í ljómandi fínu veðri og einkenndist stemningin í Bakkagarði af gleði og góðri samveru bæjarbúa.
Ekki var annað sjá og heyra en að allir hafi skemmt sér vel og notið alls þess sem boðið var upp á enda dagskráin bæði fjölbreytt og metnaðarfull. Fjöldi fólks nýtti sér gott boð um bátasiglingu frá smábátahöfninni og fjölmenni marseraði í skrúðgöngunni undir taktföstum tónum lúðrasveitar Tónlistarskólans með fánabera frá Ungliðadeild björgunarsveitarinnar í broddi fylkingar. Jón Jónsson stóð sig frábærlega á stóra sviðinu og hélt uppi stemningunni eins og honum einum er lagið sem og voru Bríet, ræningjarnir úr Kardimommubænum og Friðrik Dór meiriháttar. Þór Sigurgeirsson flutti jómfrúarræðu sína sem bæjarstjóri og Sjöfn Þórðardóttir sem var fjallkonan 2022 var afar glæsileg og fór vel með ljóðið Vornótt eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Öll fjölbreyttu leiktækin, hestarnir, andlitsmálningin, kandíflossið og aðrar góðar veitingar vöktu að vanda mikla lukku ungu kynslóðarinnar með tilheyrandi biðröðum. Bara allt eins gott og það á að vera á 17. júní!
Ljósmyndir: Seltjarnarnesbær og Bryndís Ragnarsdóttir ljósmyndari.