Margt nýtt á döfinni í Fella- og Hólakirkju
Breytingar verða á starfi Fella- og Hólakirkju með komandi vetri. Fyrst má telja að prestaköllin í Fella- og Hólakirkju og Breiðholtskirkju hafa verið sameinuð í eitt prestakall sem nefnist Breiðholtsprestakall. Það merkir að í vetur verður aukið samstarf á milli kirknanna sem á eftir að skila sér í öflugu starfi í báðum kirkjum. Séra Jón Ómar Gunnarsson hefur starfað sem prestur í Fella- og Hólakirkju í nokkur ár og séra Pétur Ragnhildarson tók við prestsstarfi þar á síðasta ári. Magnús Björnsson prestur Breiðholtskirkju mun láta af störfum fyrir aldurs sakir síðar á þessu ári og gert er ráð fyrr að tveir prestar starfi í hinu nýja sameinaða prestakalli. Nú eru nýir herrar og eðlilegt að þeim fylgi einhverjar nýjungar. Jón Ómar og Pétur settust niður með Breiðholtsblaðinu á dögunum til að kynna hvað verður á döfinni í vetur.
Séra Guðmundur Karl lét af störfum fyrr á þessu ári eftir 35 ára prestskap við kirkjuna og séra Svavar Stefánsson nokkru fyrr. Jón Ómar kom til starfa þegar Svavar hætti og Pétur hefur verið kirkjunni innan handar um tíma einkum við barna og ungmennastarf þar til hann tók við prestskap. Segja má að hann sé uppalinn í Fella- og Hólakirkju því móðir hans Ragnhildur Ásgeirsdóttir sinnti starfi djákna við kirkjuna um árabil.
Messað klukkan fimm
Eitt af því sem safnaðarfólk og kirkjugestir munu fljótt verða varir við er breytt messuform. Um róttæka nýjung er að ræða sem er að færa messutímann á sunnudögum til kl. 17.00 – kl. fimm í eftirmiðdag á sunnudögum. Þetta er eftirtektarverð breyting á messutíma innan kirkjunnar sem hefur verið nokkuð fastheldin á að messur á sunnudögum séu haldnar fyrir hádegi. Með þessu er þó ekki verið að hverfa frá hinum gamla og gróna messutíma að fullu vegna þess að fimm messurnar verða haldnar í Fella- og Hólakirkju en áfram verður messað í Breiðholtskirkju á hefðbundna tímanum kl. 11.00 fyrir hádegi. Þeir Jón Ómar og Pétur segja að messusókn í Breiðholtskirkju sé góð og að hópurinn sem mæti þar sé samheldinn og trúfastur. Þeir hyggjast skiptast á að messa í efra og neðra og þjóna þannig báðum söfnuðum.
Málsverður eftir messu kl. 17
Önnur athyglisverð nýbreytni er að boðið verður upp á léttan málsverð í Fella- og Hólakirkju að lokinni messu á sunnudögum. Þá getur fólk sest niður, nært sig og spjallað saman. Rætt nýjustu tíðindi af landi og umheimi og bara um lífið og tilveruna eða daginn og veginn eins og það var stundum kallað hér áður fyrr. Þeir segja að ekki sé verið ráðast gegn hinni hefðbundnu sunnudagsmáltíð á heimilum enda ýmsar samfélagsbreytingar að baki í þeim efnum. Lambalærið sé oft á borðum á öðrum tímum hafi það ekki vikið fyrir annarri matargerð. Þeir Jón Ómar og Pétur segjast vona að fólk kunni að meta þessa nýjung og notfæri sér hana. Þarna geti skapast skemmtilegt samfélag á meðal kirkjugesta.
Ná betur til safnaðarfólks
Þeir segjast vilja ná betur til safnaðarfólks. Í covid hafi margir misst tengslin við kirkjuna sína. Í Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju hefur verið öflugt og lifandi safnaðarstarf í gegnum árin sem verður byggt á. Reglulegar samverur fyrir alla aldurshópa eru í kirkjunum tveimur og öflugt fermingarstarf. Samverur eldri borgara eru á þriðjudögum í Fella-og Hólakirkju og á miðvikudögum í Breiðholtskirkju. Foreldramorgnar eru í Breiðholtskirkju á fimmtudögum og Fella- og Hólakirkju á föstudögum. Barnastarf er fyrir 6 til 12 ára í Breiðholtskirkju á miðvikudögum og unglingastarfi á fimmtudögum. Barna – og unglingastarf er í Fella-og Hólakirkju á fimmtudögum. Hægt er að kynna sér starfið betur á heimasíðum kirknanna.
Fara með faðirvorið á sínu tungumáli
Þeir segja að messutími og matarvenjur séu þó alls ekki það eina sem sé að taka breytingum. Breiðholtsbyggðin sé að breytast og þá ekki síst sú efri. Margt fólk hafi flust í Breiðholtið frá öðrum löndum og menningarsvæðum. Börnum af erlendum uppruna fjölgi stöðugt. Það sé skylda kirkjunnar að styðja nýtt fólk til búsetu burtséð frá hvaða kirkjudeildum eða trúarsamfélögum það komi. Af þessum sökum fækki fermingarbörnum en þó sé talsvert um að börn sem komu úr öðrum trúarsamfélögum láti fermast. Þeir segjast hafa veitt því athygli að fólk af erlendum uppruna sem komi í messur eða kirkjulegar athafnir fari oft með faðirvorið „pater noster“ hvert á sínu tungumáli sem minnir okkur á að kristin trú er alþjóðleg og að við eigum trúsystkini um allan heim.
Kirkjan á mörg tækifæri
Þeir Jón Ómar og Pétur segja að fermingarfræðslan hafi einnig breyst þrátt fyrir að innihaldið standi alltaf fyrir sínu. Líf og starf Jesú sé eftir sem áður kjarninn í fermingarfræðslunni en nálgunin hafi breyst auk þess sem brotið hafi verið upp á ýmsum nýjungum. Við höfum staðið fyrir spurningakeppnum í tímum, verið með samverur á laugardögum og börnin hafa farið í tveggja nátta ferð í Vatnaskóg sem hefur mælst vel fyrir. Jón Ómar og Pétur segjast hafa orðið varir við vaxandi áhuga á unglingastarfinu og þar hafi verið uppgangur að undanförnu og ungt fólk úr unglingastarfinu sé nú komið í sóknarfnefndina. Þeir segja kirkjuna eiga mörg tækifæri. Hún verði að laga sig að tíð og tíma eins og sjá megi af þeim nýjungum sem nú eru að fara af stað. Þeir hlakka til að taka á móti Breiðhyltingum í vetur í kirkjunum sínum, Breiðholtskirkju og Fella- og Hólakirkju.