Bensínstöðinni ekki lokað um áramótin
Borgarráð samþykkti fyrir áramót að fresta tímamörkum samkomulags við Festi ehf. vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Ægisíðu 102. Því var rekstri bensínstöðvar N1 og smurstöðvarinnar við Ægisíðu ekki hætt um liðin áramót líkt og tiltekið var í samkomulagi sem gert var sumarið 2021.
Ástæður frestunarinnar eru að ekki hefur verið gengið frá samþykkt á nýju deiliskipulagi á lóðunum Ægisíðu 102 og Fiskislóð 15 til 21 vegna atvika sem ekki má rekja til lóðarhafa voru teknar upp viðræður um endurskoðun á því tímamarki sem rekstri eldsneytisstöðvar á Ægisíðu 102 hafði verð sett. Í greinargerð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara kemur fram að nú sé beðið eftir niðurstöðu Borgarsögusafns um verndun bensínstöðva auk þess sem skipulagsfulltrúi sé að vinna að minnisblaði um uppbyggingu á þeim lóðum þar sem samið hefur verið um að bensínstöðvar víki. Þegar rekstri bensínstöðvarnar verður hætt verður heimilt að taka í notkun tvær dælur við verslun Krónunnar á Fiskislóð 15 til 21.