Elsta tvílyfta íbúðar­húsið í Reykjavík

Kirkjutorg 6.

Við Kirkjutorg 6 stendur eitt af fyrstu tvílyftu íbúðarhúsunum sem reist var í Reykjavík. Húsið var byggt 1860. Húsið var byggt af bindingi og hlaðið í með hraun- og holtagrjóti. Klætt var utan á allar hliðar með hellum og helluþaki á rimum.  

Sögu hússins má rekja til 1860 að Jakob Sveinsson húsasmiður fékk úthlutað landspildu vestan Dómkirkjunnar. Á spildunni byggði hann tvílyft íbúðarhús með kjallara og síðar smíðahús. Talið er að íbúðarhúsið sé fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið í Reykjavík. Þetta var með hærri húsum sem byggð höfðu verið og festist nafnið “Strýta” við það en það var einnig kallað Jakobshús. Í gegnum tíðina hefur húsið verið skráð á nokkrum stöðum án þess að hafa verið flutt til. Fyrst við Austurvöll, þá Lækjargötu, næst Pósthússtræti 14 og að endingu Kirkjutorg 6.

Lærði í Danmörku og Frakklandi og kenndi mörgum

Hver var Jakob Sveinsson. Hann var ættaður af Vatnsnesi í Vestur- Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Sveinn Guðmundsson bóndi á Ægisíðu og móðir hans var Ingibjörg Þorsteinsdóttir, systir Jóns Þorsteinssonar landlæknis. Jakob er talin hafa alist að mestu upp hjá lækninum frænda sínum. Hann lærði trésmíði á Íslandi en eftir það fór hann til Kaupmannahafnar þar sem hann dvaldi í átta ár og var einnig um tíma í Frakklandi. Hann lærði húsgagnasmíði erlendis og er talið að hann hafi aðallega lagt stund á þá iðngrein á meðan hann dvaldi þar. Eftir að hann kom aftur til Íslands hóf hann kennslustörf og kenndi mörgum ungum mönnum trésmíði. Hann var einn af stofnendum Handiðnaðarmannafélags Reykjavíkur sem stofnað var árið 1867 og var um tíma formaður þess. Á meðal verkefna sem Jakob tók að sér var að sjá um viðgerð á Dómkirkjunni árið 1878. Hann breytti turni kirkjunnar í þá mynd sem hann er nú. Jakob var falið að sjá um undirbúning að byggingu Alþingishússins áður en erlendir smiðir komu til starfa við bygginguna. Honum var einnig falið að smíða borðin í Alþingishúsið en stólar voru keyptir erlendis frá.

Ekkjumaður með mannmargt heimili

Jakob Sveinsson giftist Málfríði Pétursdóttur dóttur Péturs Magnússonar hreppstjóra í Seli í maí 1857. Hún lést 11. júlí 1857 aðeins tæpum tveimur mánuðum eftir brúðkaup þeirra. Jakob giftist ekki aftur og var ekki við kvenmann kenndur eftir lát konu sinnar svo vitað sé. Hann eignaðist heldur ekki neina afkomendur. Mannmargt var gjarnan á heimili hans. Í manntali frá 1880 voru til húsa í húsinu sem sem þá tilheyrði Pósthússtræti: Jakob Sveinsson trésmiður, Sigríður Gunnarsdóttir ráðskona, ein vinnukona og Marja Sveinsdóttir fósturdóttir Jakobs. Einnig bjuggu í húsinu Jón Jónsson landritari og Eiríkur Briem, prestaskólakennari. Flestir lærisveinar Jakobs bjuggu á heimili hans á meðan á námi þeirra stóð og í manntalinu frá 1880 dvöldu sex nemar á heimilinu.

Margir nafnkunnir menn 

Jakob Sveinsson lést 9. ágúst 1896. Eftir lát hans var húsið selt. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri keypti það ásamt viðbyggingum þar á meðal smíahúsi og seldi síðan í nokkrum hlutum. Árni Nikulásson keypti íbúðarhúsið og nokkra lóðarspildu vestan við það. Árið 1903 byggði Árni þrílyfta timburbyggingu vestan við húsið en áfasta við það og var innangengt á milli húsanna. Árni Nikulásson var rakari og hafði rakarastofu á fyrstu hæð nýja hússins. Margir nafnkunnir menn og konur hafa búið í húsinu. Þar bjó Pétur Guðjohnsen organisti með stóra fjölskyldu og hafði aðra hæðina til afnota. Þar bjó Kristín Thoroddsen, ekkja Jóns Thoroddsens og ól þar upp syni sína, Skúla, Þórð og Sigurð. Af öðrum sem búið hafa við Kirkjutorg 6 má nefna Jón Ólafsson ritstjóra, Jón Jónsson ritara og Einar Gunnarsson ritstjóra, sem var stofnandi dagblaðsins Vísis. Fyrsta ritstjórnarskrifstofa blaðsins var á Kirkjutorgi 6. Af öðrum sem bjuggu í húsinu má nefna Herdísi Benediktsen frá Flateyri, Hannes Árnason dósent og Gest Pálsson skáld.

Kirkjutorg 6 er í dag í eigu fyrirtækisins Þórsgarður sem er fjárfestingarfyrirtæki er sérhæfir sig í kaupum og rekstri á fasteignum. Eigendur þess eru Michael Jenkins, bandarískur fjárfestir og Eygló R. Agnarsdóttir og Valdís Fjölnisdóttir.

You may also like...