150 nemendur útskrifuðust frá FB
Alls útskrifuðust 150 nemendur frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í Hörpu þann 25. maí, þar af voru 78 nemendur með stúdentspróf. Stærsti verknámshópurinn voru nemendur af sjúkraliðabraut en alls útskrifuðust 35 nemendur af brautinni. Þá útskrifuðust 17 af húsasmíðabraut, 11 af rafvirkjabraut og 7 af snyrtibraut. Einnig útskrifuðust 7 nemendur af starfsbraut, 2 nemendur af handíðabraut og 2 skiptinemar fengu skírteini. 9 nemendur luku tveimur brautum þannig að alls voru 159 skírteini afhent. 15 nemendur fengu skírteini um framhaldsskólapróf í vikunni.
Fjölmenni var við athöfnina og lék rokkhljómsveitin Storyteller, sem skipuð er núverandi og fyrrverandi nemendum skólans við athöfnina auk tveggja gestaspilara. Þá voru veitt verðlaun fyrir góðan árangur í ýmsum greinum. Flestum verðlaunum sópaði til sín Martyna Laura Kapszukiewicz af listnámsbraut en hún hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi svo og verðlaun í dönsku og ensku. Þá hlaut hún einnig viðurkenningu frá Soroptimistakúbbi Hóla og Fella og verðlaun úr Styrktarsjóði Kristínar Arnalds fyrrverandi skólameistara FB fyrir bestan árangur í íslensku. Sigrún María Jónsdóttir af félagsfræðabraut hlaut verðlaun frá Rótarýklúbbi Breiðholts fyrir þátttöku í félagsstörfum. Andrés Wolanczyk hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi í íþróttafræði og íþróttagreinum, raungreinum og stærðfræði. Emil Steinar Björnsson fékk viðurkenningu fyrir mestar framfarir á námstímanum á starfsbraut. Donata Nutautaité hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á sjúkraliðabraut. Samtök Iðnaðarins veittu verðlaun fyrir bestan árangur á burtfararprófi í iðngreinum og þau hlutu Birgir Haraldsson, húsasmíðabraut, Sævar B Ólafsson, rafvirkjabraut og Hólmfríður M. Benediktsdóttir, snyrtibraut.