Vatnsleikfimishópurinn á ferð um Suðurland

eb-4

Guðni Ágústsson messar yfir ferðafélögum.

Hópurinn sem kemur saman til þess að stunda vatnsleikfimi, njóta heitu pottanna og góðs kaffisopa á eftir í Sundlaug Seltjarnarness hélt í síðbúna sumarferð austur fyrir fjall á dögunum. Þessi hópur mætir að sögn Kolbeins Pálssonar eins hópverja alla virka daga um sjö leytið á morgnana í laugina og tvisvar í viku er vatnsleikfimi auk pottana og kaffisins. Suðurlandsferðin kom að þessu sinni í staðinn fyrir haustblót sem hópurinn hefur verið vanur að halda en þar hafa um 30 manns komið saman á Rauða ljóninu á Eiðistorgi, auk þorrablóts og vorblóts. Farið var vítt og breytt um Árnesþing undir skeleggri leiðsögn Guðna Ágústssonar fyrrum þingmanns og ráðherra sem skipulagði ferðina.

Kolbeinn sagði að fyrst hafi verið ekið austur um Þrengsli og Óseyrarbrú til Eyrarbakka. Það hafi verið komið við í verslun Guðlaugs Pálssonar sem var kaupmaður á Bakkanum í áratugi – næstum eins lengi og honum entist aldur. “Þar tók Magnús Karel Hannesson fyrrum oddviti og nú sviðsstjóri hjá Sambandi Íslenskra sveitarfélaga á móti okkur og sýndi okkur verslunina en hann hefur keypt húsnæðið ásamt eiginkonu sinni Ingu Láru Baldvinsdóttur og endurgert verslunina og hefur hana opna um helgar með hliðsjón af ferðamönnum. Við ákváðum að kaupa kók með rauðum tappa og Freyjustaura í tilefni dagsins.”

Sérstakt að skoða veiðisafnið

Frá Eyrarbakka var haldið til Stokkseyrar þar sem Veiðisafnið var skoðað undir leiðsögn Páls Reynissonar. Kolbeinn segir sérstakt að skoða þetta safn ekki síst vegna þess að Páll hefur sjálfur veitt flest öll dýrin sem þar eru til sýnis. Frá Stokkseyri var haldið til Selfoss og Mjólkurbú Flóamanna heimsótt. Þar var ferðalöngum boðið upp á berjaskyr og rjóma og rætt um árangur MS í vöruþróun. Frá Flóabúinu var haldið að Brúnastaðaflötum, heimkynnum Guðna fararstjóra með viðkomu í Laugardælum þar sem Bobby Fischer er grafinn en síðan var Flóaáveitan skoðuð undir styrkri leiðsögn Guðna. Úr Flóaengjum var farið Skeiða- og Gnúpverjahrepp. Áð var á Minna Hofi þar sem Gestur Einarsson og Valgerður Hjaltestð tóku á móti hópnum. Eftir ferð um hreppana var snæddur frábær kvöldverður grillað lambalæri með tilheyrandi, frá Kjöt og Fiski, þeirra körfuboltamanna Jóns Árnórs Stefánssonar og Pavel Ermolinski.

Guðni sagðist ekki kunna að syngja

Rútubílasöngvarnir voru með í för því sá ágæti tónlistarmaður Dýri Guðmundsson hafði tekið gítarinn með sér og hann og Sigurður J. Grétarsson stóðu fyrir fjöldasöng. „Nei – Guðni fékkst ekki til að taka lagið með þeim. Sagði sér flest annað betur til lista lagt en að syngja. Hann væri ágætur í að segja frá en sönglaus með öllu,“ segir hann sjálfur. Kolbeinn sagði að nú þegar sé farið að huga að næstu för um Suðurland og þá muni stefnt á Rangárþing. Guðni verði að sjálfssögu við fararstjórn enda fáir með meiri áhuga á sunnlenskum söguslóðum.

eb-1

Rútubílasöngvar voru með í för.

eb-3

Áð á Suðurlandi og þostanum svalað.

eb-2

Sigurður Grétarsson og Kolbeinn Pálsson á spjalli.

You may also like...