Friðrik Karlsson bæjarlistamaður
Friðrik Karlsson tónlistarmaður var útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2018 við hátíðlega athöfn á bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 19. janúar sl. Menningarnefnd Seltjarnarness sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Sjöfn Þórðardóttir formaður menningarnefndar Friðriki viðurkenningarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.
Friðrik hefur búið á Seltjarnarnesi um nokkurra ára skeið ásamt því að hafa búið þar um tíma á sínum yngri árum. Friðrik er vel þekktur og eftirsóttur tónlistarmaður hér heima og erlendis. Hann hefur starfað sem atvinnutónlistarmaður frá unga aldri og auk þess að starfrækja tvær tónlistarútgáfur í Bretlandi. Frá upphafi ferilsins hefur Friðrik verið afar afkastamikill tónlistarmaður og lagasmiður og á til að mynda 364 verk skráð/útgefin hjá STEF. Friðrik var á árinu 2017 heiðraður með Gullnöglinni, gítarverðlaunum Björns Thoroddsen í viðurkenningarskyni fyrir landvinninga og afburða gítarleik. Friðrik hefur leikið inn á fjölmargar hljómplötur á Íslandi og erlendis og er hvað þekktastur fyrir þátttöku sína í Mezzoforte frá 1977 en hljómsveitin hlaut heimsfrægð og komst á vinsældalista erlendis með Garden Party. Mezzoforte er enn eftirsótt hljómsveit og kemur fram á tónleikum um allan heim. Friðriki Karlssyni og fjölskyldu eru færðar innilegar hamingjuóskir með heiðursnafnbótina, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2018 og munu Seltirningar að sjálfsögðu fá að njóta hæfileika hans á árinu.