Öryggismyndavélum fjölgað á Nesinu
Nýverið undirrituðu Seltjarnarnesbær, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínan ohf. undir samning um verklag við kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi á Seltjarnarnesi. Öryggismyndavélakerfið er eingöngu ætlað til að þjóna þörfum lögreglu og annarra neyðaraðila og fer notkun þess og aðgangur að gögnum úr kerfinu samkvæmt reglum lögreglu og persónuverndar.
Um nokkurra ára skeið hafa verið öryggismyndavélar við bæjarmörkin tvö á Seltjarnarnesi. Þeim vélum verður nú skipt út og settar upp nýjar og mun tæknilegri myndavélar. Að auki verða settar upp öryggismyndavélar við skólabyggingar og ýmiss opin svæði á Seltjarnarnesi en staðsetningarnar verða ákveðnar af lögreglu í samráði við Seltjarnarnesbæ og Neyðarlínuna.