Engin áform um íbúðabyggð í Örfirisey
— það gæti þó breyst á komandi tímum —
Engin áform eru um að breyta skiplagi Grandans á þann hátt að þar verði reist íbúðabyggð. Áhugi mun þó vera fyrir hendi að koma á fót húsnæði sem fólk geti notað með tímabundnum hætti til búsetu. Einkum fólk sem væri starfandi að nýsköpunar og þróunarverkefnum.
Þessi hugmynd á rætur að rekja til starfsemi Sjávarklasans sem er samheiti á samfélagi um 50 framsækinna nýsköpunar- og þróunarfyrirtækja. Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans sagði í viðtali við Vesturbæjarblaðið fyrr á þessu ári að framtíðardraumur væri um nýsköpunarbyggð í Örfirisey. Hann sagði að með Sjávarklasanum og Ferðaklasanum væri kominn ákveðinn grunnur fyrir slíka byggð. Víða erlendis hafi nýsköpunarbyggðir risið á eldri hafnarsvæðum. Hann nefndi dæmi frá Boston þar sem húsnæði sem áður hýsti verksmiðjur og vöruskemmur hýsa nú nýsköpunarfyrirtæki, hönnunarstofur, auglýsingastofur, gallerí og jafnvel háskólastofnanir. Hann benti á að komi deilihagkerfið við sögu og einnig sú þróun að borgir séu í auknum mæli að færa sig til sjávar. Atvinnulífið fari á undan og þá kjósi fólk einnig að búa á þessum svæðum. Sjávarklasinn hefur aðsetur í Bakkaskemmunni og víðar í Örfirisey. Þar er nú að finna starfsemi á borð við veitingastaði, ísbúð, fatahönnun, gleraugnaverslun og fleira. Þarna er um að ræða húsnæði sem að mestu var notað til fiskvinnslu og annarrar útvegsstarfsemi í gegnum tíðina en hefur nú fengið ný hlutverk. Enn er þó útvegsstarfsemi í Örfirisey. Fiskvinnslustöð Brim er þar og smábátaútvegur hefur aðstöðu í niðri hluta gömlu skemmanna. Ekki eru nein fyrirheit um að hún hætti eða að öll lengjan verið tekin til verslunarþjónustu og annarra verkefna eins og syðri hlutinn. Um framtíðina er þó örðugt að segja til. Ný fyrirtæki eru stöðugt að hasla sér völl á Grandanum. Einnig má benda að á miðsvæðinu á milli Grandagarður og Fiskislóðar standa margar gamlar iðnaðarbyggingar sem muna mega fegurri fífil en hafa ekki sama sögulega gildi og gömlu skemmurnar. Fyrir um ári samþykkti stjórn Faxaflóahafna sf. fyrir sitt leyti nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar Fiskislóð 16 til 32 í Örfirisey. Þar var fyrir-hugað að rífa eldri hús og hefja stórfellda uppbygging í kjölfarið. Deiliskipulagstillagan var í öllum meginatriðum eins og sú tillaga sem send var til borgarinnar í kynningarformi seinni hluta árs 2017. Meirihluti umhverfis- og skipulagsráði hafnaði þeim hugmyndum ásamt borgarráði á þeim forsendum að hvorki hefði verið mörkuð stefna um uppbyggingu í Örfirisey til lengri tíma eða um breytingar á heimilaðri notkun á svæðinu. Ekki væri hægt að taka af-stöðu til einnar lóðar eða brots af svæði án þess að skoða alla Vesturhöfnina heildstætt. Fastlega má gera ráð fyrir að knúið verði á um deiliskipulag fyrir þetta svæði með blandaða starfsemi í huga líkt og þróast hefur á Grandanum á undanförnum árum. Nái hugmyndir Þórs Sigfússonar fram að ganga má gera ráð fyrir að takmörkuð íbúðabyggð geti ristið á þessu svæði.