Gert ráð fyrir hjólastígum úr Miðborginni
Gert er ráð fyrir að lagður verði hjólastígur eftir Lækjargötu. Stígurinn muni ná suður með Tjörn, meðfram Hljómskálagarði og inn eftir Gömlu Hringbraut, þaðan yfir í Vatnsmýri og út í Nauthólsvík. Það sama gildir um góðan spöl á Bústaðavegi.
Að þessu er stefnt í forgangsröðun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu stofnleiða á árunum 2020 til 2033. Í flestum tilvikum er miðað við hjólastíga hvort sem þeir eru einbreiðri eða tvíbreiðir. Skipulagið gerir ráð fyrir að margir kaflar verði í námunda við Borgarlínuna fyrirhuguðu, enda eigi samhliða henni að vera góðar hjólasamgöngur. Fjárfesting í uppbyggingu samvinnuinnviða, þar með talinni Borgarlínu, mun nema 120 milljörðum króna fram til 2033, þar af 8,2 milljörðum í göngu- og hjólastíga. Leitast á við að byggja upp hjólastíga þar sem umferðartalning gefur tilefni til og þar með að tryggja að meðfram stofnleiðunum svonefndu verði hægt að hjóla í flestum veðrum. Verkfræðistofunni Eflu var falið að teikna upp framtíðarsýn á uppbyggingu stofnleiða með samstarfshópi frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðinni. Nú er það í höndum sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar að hrinda áformunum í framkvæmd.