Afþreygingarmiðuð göngugata, endurgerð bílastæði og nútímalegt umhverfi
– Kolbrún ætlar að flytja tillögur um Mjóddina –
Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi hyggst leggja fram þrjár tillögur í borgarstjórn er varða Mjóddina. Hún segir að úr göngugötunni í Mjódd sé aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir. Gera mætti fjölmargt fyrir götuna til að gera hana meira aðlaðandi. Hún bendir á að stundum sé götumarkaður í göngugötunni en fjölmargt annað mætti koma til sem laðaði að aldna sem unga.
„Yfirbyggð gata eins og göngugatan í Mjódd sem og það útisvæði sem er þar í kring s.s. litlu torgin við innganga til norðurs og suðurs bjóða upp á ótal tækifæri. Þar mætti sem dæmi spila tónlist, söng, dans og annað sem gleðja myndu gesti og gangandi. Þá er einnig ónotuð lóð við Álfabakka 18.“ Kolbrún kveðst ekki sjá að nein sérstök stefna ríki um svæðið í Mjódd. Vel mætti vinna markvisst að því að þetta svæði yrði að helsta kjarna Breiðholtsins.
Afþreygingarmiðuð göngugata
Fyrsta tillaga Kolbrúnar er um afþreyngamiðaða göngugötu. „Með því að glæða götuna lífi mun það auka aðsóknina og breikka hóp viðskiptavina. Tækist vel til myndu fleiri fyrirtæki og verslanir vilja vera á svæðinu sem er sérstaklega vel staðsett og aðkoma að því mjög góð úr mörgum áttum. Með orðtakinu afþreyingarmiðuð göngugata er átt við göngugötu sem fólk sækir í ýmist til að versla, fá sér kaffi og/eða upplifa viðburði. Göngugatan í Mjódd hentar mjög vel fyrir þá sem langar að hitta aðra eða sjá skemmtilega hluti. Verslun í bland við veitingasölu, uppákomur, gjörninga og styttri viðburði svo sem uppistand, stutta leikþætti, tónlistar- og söngatriði, og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að. Skreyta mætti götuna meira með listaverkum, mála hana með glaðlegum litum, setja upp fleiri lítil leiktæki og aðra afþreyingu sem þarna myndi passa inn. Ég hvet borgaryfirvöld að gefa þessu gaum. Vissulega standa til framkvæmdir utandyra í Mjódd og er það mjög gott en þarna bíður göngugatan í Mjódd eftir meira lífi og aukna upplifun fyrir gesti og gangandi.
Endurgera þarf bílastæðin
Önnur tillaga Kolbrúnar fjallar um bílastæðin í Mjóddinni. Hún segir að til ársloka 2018 hafi verið í gildi samningur milli Reykjavíkur og Svæðisfélags við göngugötuna í Mjódd. „Sá samningur er fallinn úr gildi og hefur ekki verið endurnýjaður. Viðræður ganga hægt og endurgerð bílastæðanna á svæðinu er orðið afar brýnt mál. Ég ætla að leggja til að gengið verði sem fyrst í að semja aftur með hagsmuni Mjóddarinnar að leiðarljósi bæði með tilliti til aðgengismála og öryggismála gesta og gangandi sem leggja leið sína í Mjódd.
Mjóddarsvæðið í nútímalegt horf
Þriðja tillaga Kolbrúnar fjallar um að skipulagsyfirvöld horfi til endurnýjunar á þessu svæði og færi það í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag. Til dæmis með því að endurgera og snyrta þau grænu svæði sem þarna eru með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun.