Nýtt byggingarleyfi fyrir Dunhaga 18 til 20
– húsið verið í niðurníðslu um árabil –
Félagið D18 ehf hefur fengið leyfi til að byggja inndregna 4. hæð auk viðbyggingar við 1. hæð og kjallara, minnka og fjölga íbúðum úr 8 í 21 við Dunhaga 18 til 20. Ýmsar breytingar verða einnig gerðar innan- og utanhúss, sorp verslunar fært á norð-vestur hlið hússins og komið fyrir þremur bílastæðum fyrir fatlaða á lóð og skipulagi lóðar breytt.
Stórhýsið við Dunhaga 18 til 20 var reist 1959 en hefur staðið nánast ónotað um árabil. Sumarið 2009 urði eigendaskipti á húsinu. Eftir það var lítið sem ekkert viðhald á því. Ástand þess hefur stöðugt versnað og mest á nýliðnum árum. Ástæður þess að ekkert hefur gerst má rekja til skipulagsferlis sem staðið hefur frá 2017. Þá var sótt um heimild til að byggja hæð ofan á núverandi fjölbýlishús, nýtt lyftuhús og viðbyggingu á einni hæð auk kjallara. Byggingarleyfi var veitt fyrir þeirri framkvæmd en var síðan kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi það úr gildi vegna þess að framkvæmdin átti sér ekki stoð í deiliskipulagi og grenndarkynning var ekki fullnægjandi. Á vegum Reykjavíkurborgar fór þá af stað vinna við deiliskipulag og lauk henni með auglýsingu í Stjórnartíðindum. Það skipulag var einnig kært og felldi nefndin það úr gildi í mars 2020. Kærendur fundu breytingum á húsinu margt til foráttu.
Kærendur töldu hið kærða byggingarleyfi ekki vera í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 til 2030. Aðalskipulagið geri ekki ráð fyrir þéttingu byggðar á þéttbyggðum og gamalgrónum svæðum. Engin þörf sé að þétta byggð á svæðinu frekar, þar sem þéttleiki byggðar á höfuðborgarsvæðinu sé hvað mestur í vesturbæ Reykjavíkur. Byggingarfulltrúi geri ekki greinarmun á æskilegri þéttingu byggðar á viðeigandi svæðum og óeðlilegri röskun á gamalgrónum svæðum með breytingum á byggingum sem eigi sér enga samsvörun í næsta nágrenni. Í kærum kom fram að byggingarfulltrúa hafi borið að taka tillit til þessa sjónarmiðs við veitingu byggingarleyfisins. Ákvörðunin sé því bæði ólögmæt vegna ósamræmis við aðalskipulag og þar sem ekki hafi verið tekið tillit til lögmætra og málefnalegra sjónarmiða um þéttleika byggðar. Á þessum tímapunkti voru því nærri þrjú ár liðin frá upphaflegri umsókn um byggingarleyfi og málið komið á byrjunarreit. Eldra byggingarleyfi hefur verið dregið til baka og nýtt leyfi verið veitt.