Held að eitt stórt sveitarfélag yrði dýrara í rekstri
„Breiðholtið er skemmtilegt hverfi og þar hafa margir áhugaverðir hlutir verið að gerast að undanförnu. Ég var svolítið í Breiðholtinu þegar ég var 16 til 18 ára og líkaði vel. Það á sér sína sögu eins og aðrar byggðir og er þetta borgarhverfi þar sem fólk hefur virkilega áhuga á að setjast að og búa. Ég tel að Breiðhyltingar geti borið höfuðið hátt og verið stolt af sínu hverfi,“ segir Halldór Halldórsson borgarfulltrúi og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í samtali við Breiðholtsblaðið.
Halldór segir að þótt margt hafi verið að gerast í Breiðholtinu séu verkefnin ekki urin upp og enn eigi eftir að huga að ýmsu til hagsbóta fyrir íbúana en gleðilegt sé að sjá verkefni á borð við líkamsræktaraðstöðu og fleira verða að veruleika en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu upphaflega fram tillögu um það. „Bætt aðstaða skapar betri árangur og stolt sem því fylgir. Það er mjög gaman að fylgjast með Leikni sem nú er komið í úrvalsdeild í fótboltanum. Margt á eftir að gera varðandi aðstöðusköpun fyrir íþróttafélögin og heyri ég oft á ÍR-ingum að þeim þykir bið eftir íþróttahúsi orðin löng. Nú hefur frekari ákvörðun verið frestað til 2017 með samkomulagi borgarinnar við aðalstjórn félagsins. Við lögðum til að fela ÍR rekstur íþróttahúsanna við Seljaskóla og Austurberg og úr því var unnið og kemur vonandi vel út fyrir alla aðila. Við lögðum einnig fram tillögu um að vinna nýjan frjálsíþróttavöll fyrir félagið og það er í undirbúningi.“
Mikilvægt að fólk fylgist með hverfisskipulaginu
Halldór segir að verið sé að setja af stað vinnu við hverfisskipulag fyrir Breiðholtið og vill hvetja íbúana til þess að fylgjast vel með og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. „Ég tel nauðsynlegt að Breiðhyltingar leggi sínar hugmyndir fram og að þær komist inn í þá vinnu sem á sér stað við skipulagsgerðina. Þótt Breiðholtið sé að mestu byggt munu eðlilega koma fram ýmsar hugmyndir í hverfisskipulagsvinnunni sem ég er ekki viss um að allir íbúar séu sáttir við. Það er líklegt að þar komi fram hugmyndir um að nýta svæðið fyrir neðan Stekkjarbakkann fyrir íbúðabyggð. Það hefur sýnt sig að skoðanir um það mál eru nokkuð skiptar og fyrir sumum er það viðkvæmt. Margir íbúar sem ég hef rætt við, sérstaklega í Neðra Breiðholti líta svo á að byggð neðan Stekkjarbakka skyggi á útsýnismöguleika þeirra og einnig eru uppi sjónarmið um að alls ekki eigi að byggja nær Elliðaárdalnum en gert hefur verið og þá einkum af umhverfisástæðum. Ég minnist þess að það fór ekki vel í fólk þegar hugmyndir komu fram um að reisa slökkvistöð á þessu svæði. Ég veit þó að það eru ekki allir sem vilja halda þessu svæði alfarið grænu og telja vel mögulegt að reisa lágreista byggð þarna hvort sem menn vilja kalla hana byggð á bökkum Elliðaðánna eða eitthvað annað. Þessi sjónarmið verða öll að koma fram og það verður að taka mið af þeim við skipulagsvinnuna.“ Halldór segir ekkert óeðlilegt við að fólk vilji hafa græn svæði í kringum sig. „Það er ekki bara sveitamaðurinn í okkur Íslendingum sem kallar eftir því. Hvarvetna þar sem maður fer um heiminn og hversu þétt sem byggð er má sjá græn svæði reyndar misjafnlega stór en viðast hvar græna bala þar sem fólk getur sest niður með gras við fætur sér. Meira að segja í New York þeirri þétt byggðu borg er að finna stór græn svæði. Einnig í London og mörgum öðrum þéttbyggðum og fjölmennum borgum. Þetta er bara hluti af því að halda heilsu og nú á tímum þegar áhersla er lögð á lýðheilsu megum við ekki vinna gegn því með húsbyggingum hvar sem sést í grænt gras þó þétting byggðar sé líka verðugt viðfangsefni enda fylgir byggð og það þétt byggð því að búa í borg.“
Endurbætur á Breiðholtsskóla mikilvægar
Uppbyggingu hverfa lýkur aldrei,“ segir Halldór. „Þótt búið sé að fylla alla byggingafleti er margt sem þarf að huga að og endurhugsa í sátt við íbúana. Bæði viðhaldi mannvirkja og einnig að allri uppbyggingu innviða samfélagsins. Ég get nefnt lagfæringar á Breiðholtsskóla sem dæmi um verk sem þolir enga bið. Þetta er elsta skólabyggingin í Breiðholtinu – komin á fimmta áratuginn og þótt hún hafi þjónað vel í bráðum hálfa öld þarfnast hún sárlega endurbóta. Nokkuð er farið að rofa til í því efni en þessu verki verður að halda áfram og ljúka því eins fljótt og nokkur kostur er. Það eru orðin kynslóðaskipti í Breiðholti og fólk með börn er að setjast þar að í auknum mæli eftir því sem húsnæðis losnar og kemur í sölu. Breiðholtið rétt eins og önnur hverfi fer í gegnum sveiflur í mannfjölda. Ég tel að verkefni á borð við Breiðholtsskóla verði að komast fremst í forgangsröðina þótt af ýmsu öðru sé að taka.“
Heppin með fólk sem hefur flutt hingað
Talið berst að fjölmenningu og því fjölmenningarsamfélagi sem hefur þróast í Breiðholti. „Við eigum að fagna þessari þróun,“ segir Halldór. „Flestar borgir í heiminum byggjast á fjölmenningu. Þar býr fólk með uppruna í flestum heimshlutum og frá flestum menningarsvæðum. Reykjavík er engin undantekning að því leyti og við eigum að stuðla að sem fjölþættastri blöndun í borginni. Ég tel að við höfum verið heppin með það fólk sem hefur flutt hingað á umliðnum árum og sest hér að. Margt fólk hefur flutt með sér áhrif sem vantaði í okkar samfélag og mér kemur þá matar- og veitingamenningin til hugar því það er svo sýnilegt. Ég er ekki viss um að við hefðum geta tekið sómasamlega á móti þeim mikla fjölda ferðafólks sem kýs að leggja leið hingað til lands ef við hefðum ekki fengið hingað fólk frá öðrum löndum og getum nú miðlað gestum okkar af margbreytilegi matar- og veitingamenningu.“
Ársreikningurinn sýnir skelfilega niðurstöðu
Frá Breiðholtinu berst talið að fjármálum og rekstri Reykjavíkurborgar en fram hefur komið að A-hluti borgarsjóðs var rekinn með 2,8 milljarða króna halla á síðasta ári en gert var ráð fyrir að afkoman yrði jákvæð um 488 milljónir króna. Þetta þýðir að afkoma A-hluta er lakari um 3,3 milljarða en gert var ráð fyrir. Þá er rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs neikvæð um 7,1 milljarð króna en gert var ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 5,1 milljarð króna sem er 1,9 milljörðum króna lakari niðurstaða en gert var ráð fyrir. Til samanburðar var afkoma A-hluta jákvæð um þrjá milljarða árið 2013 og afkoma Aðalsjóðs jákvæð um 64 milljónir sama ár. „Ársreikningur 2014 sýnir skelfilega niðurstöðu A-hlutans sem er allur helsti rekstur borgarinnar, annar en fyrirtækja í B-hluta, fjármagnaður með skatttekjum. Aðalsjóður er rekinn með 7,1 milljarða kr. halla á árinu 2014. Og það er ekki eins og þetta sé einhver hliðarstarfsemi borgarinnar eins og nafn sjóðsins ætti reyndar rækilega að undirstrika. Þetta er öll helsta starfsemin. Þarna unnu að meðaltali 6.559 starfsmenn á árinu 2014. Veltan er 85 milljarðar í aðalsjóði þegar heildarvelta samstæðunnar allrar að meðtalinni Orkuveitu er 133 milljarðar. Þetta eru sláandi tölur sem segja okkur að það er eitthvað mikið að í rekstri Reykjavíkurborgar þegar útgjöld aðalsjóðs aukast um 9,8 milljarða kr. á milli ára. Tapið á aðalsjóði Reykjavíkurborgar er jafnhá tala og heildartekjur Mosfellsbæjar sem er í hópi stærstu sveitarfélaga landsins,“ segir Halldór
Forgangsraða verður hverfauppbyggingunni með öðrum hætti
Halldór segir að aukin hverfaþjónusta sé eitt og uppbygging hverfanna annað. „Mér finnst að forgangsraða verði með öðrum hætti hvað hverfauppbygginguna varðar en verið hefur. Þótt nauðsynlegt sé að þétta byggð og nýta betur það byggingarland sem við höfum víðs vegar um borgina þá getum við ekki horfið frá uppbyggingu nýrra borgarhverfa því fólk þarf að hafa raunverulegt val um hvar það setur sig niður innan borgarinnar og hvernig það vill búa. Við þurfum ekki annað en að horfa yfir Breiðholtið í dag til þess að sjá árangur af slíkri uppbyggingu. Þarna er eitt best afmarkaða og öflugasta hverfi borgarinnar með liðlega 20 þúsund íbúa. Og þótt hrunið hafi tafið ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir á borð við uppbyggingu Úlfarsárdalsins þá getum við ekki slegið þeim endalaust á frest, það snýst um forgangsröðun.“ Halldór segir okkur verða tíðrætt um dreifða borg en það liggja ýmsar ástæður að baki því hvernig Reykjavík byggðist upp. „Byggðin þræddi hæðir í landslaginu en mýrarnar voru skildar eftir því menn höfðu ekki nægilega öflug tæki til framræslu. Svo áttu stríðsárin nokkurn þátt í því þar sem hernaðarleg mannvirki þöktu ýmis svæði sem ekki var hægt að taka til borgaralegrar notkunar meðan á stríðinu stóð og eftir það. Það liggja því bæði landfræðilegar og ekki síður sagnfræðilegar ástæður að baki byggingarsögu Reykjavíkur. En byggðin er að þéttast og það er eðlileg þróun. Um leið þarf fólk að geta fengið lóðir í úthverfum því það eru ekki allir eins og það vilja ekki allir búa eins.“
Óttast að stórt sameinað sveitarfélag yrði dýrara í rekstri
Þá að höfuðborgarsvæðinu sem heild. Nokkuð hefur verið rætt um hvort hagkvæmt eða skynsamlegt geti verið að fækka sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu með sameiningum eða jafnvel að sameina það í eitt. Hvað segir Halldór um þessar hugmyndir eða telur hann aukna samvinnu ef til vill hentugri kost en að fara í svo róttækar breytingar sem stór sameining yrði og erfitt að sjá fyrir hvaða afleiðingar myndi hafa. Halldór segir að samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi verið að aukast í gegnum SSH. „Við erum nú þegar með nokkur samrekstrarverkefni og má benda á almenningssamgöngurnar og sorpmálin sem dæmi um það. Strætó og Sorpa eru samstarfsverkefni og einnig má nefna ferðaþjónustu fatlaðra þar sem sveitarfélögin starfa saman að Kópavogskaupstað undanskildum. Þá er einnig verið að leggja lokahönd á sameiginlegt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið. Ég tel að samstarfið sé að þéttast en sé enga sameiningu í kortunum. Menn hafa verið að viðra hugmyndir um breytingar á sveitarfélagaskipaninni af og til en ég veit ekki hversu djúpt þær ná. Víða um landið þarf að sameina sveitarfélög en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru öll þokkalega stór á íslenskan mælikvarða. Ég hef velt þessu fyrir mér og er þeirrar skoðunar að það þurfi að vera ákveðin samkeppni til staðar á milli sveitarfélaga á þessu svæði. Ég dreg mjög í efa að stór sameining myndi lækka kostnað við rekstur – hann gæti þvert á móti aukist. Ekki síst af þeim sökum er ég að efast um ávinning af slíkri sameiningu. Ef hún yrði til þess að taka þyrfti meira af skattfé almennings í reksturskostnað væri illa farið af stað. Ég fæ ekki betur séð en að bæjarfélögin sem mynda höfuðborgarsvæðið utan um Reykjavík séu ekki verr rekin og oftast betur en Reykjavíkurborg. Hagkvæmni stærðarinnar virðist ekki nýtast borginni nú um mundir og oft er hægt að ná góðum árangri í minni samfélögum. Ég hef velt því fyrir mér hvort unnt væri að reka borgina með hagkvæmari hætti – hvort vinna mætti þjónustuna í hverfunum enn betur og á hagkvæmari hátt en við gerum í dag. Við erum með þjónustumiðstöðvar en samt mismunandi þjónustu eftir hverfum, mislanga biðlista o.s.frv. Það er mikilvægt að vera með þjónustuna sem næst íbúunum en um leið þarf jafnræði meðal borgarbúa.“
Fleiri borgarfulltrúar – meiri hverfisáhersla
Nú blasir við í samræmi við sveitarstjórnarlög að borgarfulltrúum muni fjölga úr 15 í 23 á næsta kjörtímabili. Hvaða skoðun hefur Halldór á því máli. „Mér persónulega finnst þetta alltof bratt en það þyrfti lagabreytingu til að snúa því við. Við þurfum að skoða í samhengi við fjölgun borgarfulltrúa meiri áherslu á hverfin. Jafnvel að hluti borgarfulltrúa komi úr ákveðnum hverfum.“ Þegar Halldór er inntur eftir því hvort eitt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem teldi meira en tvo þriðju hluta þjóðarinnar hefði afgerandi áhrif á ríkið, samskipti ríkis og sveitarfélag og jafnvel á landsbyggðina kvaðst hann ekki hafa áhyggjur af því. „Ég held að stór sameining á höfuðborgarsvæðinu myndi ekki breyta miklu um það. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því rekstur slíks sveitarfélags myndi auka kostnað við þá þjónustu sem sveitarfélögin veita og einnig er erfitt að sjá fyrir hvernig þjónustustarfsemin myndi þróast í slíku sveitarfélagi. Ég held að það yrði ekki gott fyrir íbúana.