Golfið er lýðheilsuíþrótt
– segir Þorsteinn Guðjónsson formaður Golfklúbbs Ness –
Þorsteinn Guðjónsson formaður Golfklúbbs Ness – Nesklúbbsins og ferðamálafrömuður spjallar við Nesfréttir að þessu sinni. Eftir kaffibolla á Örnu lá beinast við að spyrja hann hvenær golfið hafi komið til hans. “Skemmst er frá því að segja að við hjónin byrjuðum aðeins að fikta við það þegar ég var í meistaranámi í Bandaríkjunum. Fórum að læðast út á völl um miðjan daginn þegar fáir voru á kreiki. Við bjuggum í suðurríkjunum og hitinn gat náð allt að 40 stigum yfir hádaginn. Innfæddum fannst erfitt að átta sig á að Íslendingarnir skyldu þola þetta en okkur fannst þetta ágætt að vera næstum ein út af fyrir okkur. Við gengum svo í Nesklúbbinn árið 2005. Við höfum verið virkir meðlimir síðan. Bjargey konan mín hefur verið í kvennanefnd og ég fór í stjórn klúbbsins fyrir um tveimur árum. Ég tók svo við formennsku af Kristni Ólafssyni á aðalfundi í nóvember á liðnu ári.“
Þorsteinn segir mikinn áhuga á golfi á Íslandi. Golf hafi verið í miklu vexti undanfarin ár. „Golf er frábær íþrótt sem fólk á öllum aldri getur iðkað og keppt í óháð getu þar sem iðkendur fá forgjöf tengdri sinni getu hverju sinni. Samt verður að segjast að golf er ekki ást við fyrstu sýn þó svo að þetta líti út fyrir að vera nokkuð einfalt og boltinn liggi kyrr á jörðinni þegar höggið er tekið. Það getur reynt á þolinmæðina að komast af stað, en þegar yfir þröskuldinn er komið fjölgar góðu höggunum og ánægjan eykst. Golf er líka frábær íþrótt þegar litið er til almennrar lýðheilsu. Í golfinu er maður fyrst og fremst að keppa við við sjálfan sig. Golfið býður upp á hreyfingu og útiveru sem flestir geta nýtt sér en ég lít fyrst og fremst á golfið sem félagsskap. Þar liggur ánægjan og gleðin.”
Aukinn áhuga yngri kynslóðarinnar
Þorsteinn segir að nú séu um 800 manns í Nesklúbbnum og enn fleiri á biðlista sem sé einsdæmi á landsvísu. “Það er virkilega gaman hversu mikill áhugi er að vera í Nesklúbbnum, enda sé frábær félagsandi í klúbbnum. Það er verkefni stjórnar og starfsmanna klúbbsins að nýta það landsvæði sem við höfum til afnota sem best þannig að sem flestir geti notið þess í sátt við aðra umferð, náttúru og dýr. Þessi mikla ásókn kallar á áskorun að koma fleirum að, en vissulega þurfi að huga að mörgum þáttum. Það er virkilega gaman að sjá aukinn áhuga yngri kynslóðarinnar. Á liðnu ári réð klúbburinn íþróttastjóra í fyrsta sinn, Stein Baug Gunnarsson sem hefur gert frábæra hluti í barna og unglingaþjálfuninni. Á síðasta ári fékk Nesklúbburinn gæðaviðurkenningu frá Íþróttasambandi Íslands og er orðið eitt af fyrirmyndafélögum sambandsins.“
Að spila golf allt árið um kring
„Við gerum okkar besta að fylgja þeirri þróun sem er í gangi og mæti aukinni eftirspurn í að geta spilað golf í golfhermum innanhúss yfir vetrartímann,“ segir Þorsteinn. „Nú er svo komið að tækninni hefur fleygt mikið fram og gæðin í inniaðstöðunni hefur stóraukið áhugann á því að spila golf í hermi. Vöxturinn í uppbyggingu golfherma á Íslandi er einstakur og er golfíþróttin á miklum krossgötum hér á landi þar sem iðkendur geta í auknum mæli stundaði íþróttina allt árið. Það er aldrei að vita með að golfið uppskeri á komandi árum líkt og knattspyrnan gerði í kjölfar knattspyrnuhúsanna. Undan farin ár hefur klúbburinn boðið upp á inniaðstöðu í Risinu á Eiðistorgi, en sú aðstaða var gjörsamlega sprungin. Því var opnuð á dögunum stórbætt aðstaða á Austurströnd 5. Við erum virkilega stolt að geta boðið félagsmönnum Nesklúbbsins og öðrum golfáhugamönnum upp á þessa frábæru aðstöðu. Það er ekki annað hægt en að minnast á þátt sjálfboðaliða klúbbsins í uppbyggingu þessarar glæsilegu aðstöðu, en hún er ómetanleg.“ Þorsteinn minnir á að nú styttist í næstu sumarvertíð á golfvellinum. „Því er í nógu að snúast og verkefnin mörg. Metnaðurinn er mikill í klúbbnum og við viljum byggja undir það góða starf sem unnið hefur á undanförnum árum. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Nesklúbbnum.”
Vesturbæingur og síðan Nesbúi
En hver er maðurinn Þorsteinn Guðjónsson að öðru leyti. “Ég er Þorsteinn en er oft kallaður Doddi. Þetta er ákveðið sérkenni og ég gengst alveg við því. Ég er ekki langt að kominn. Ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík. Á Kaplaskjólsvegi fyrstu 11 árin. Hjartarkjör var litla búðin við hliðina á raðhúsunum. Þetta var áður en hverfisbúðirnar hurfu aðrar en Melabúðin. Maður hljóp þangað eða út á Ægissíðuna í Neskjör á víxl. Þetta voru heimahagar. Svo fluttum við á Lindarbrautina á Seltjarnarnesi. Foreldrar mínir bjuggu þar allt til þau fluttu á Grandaveg fyrir nokkrum árum. Konan mín heitir Bjargey Aðalsteinsdóttir og er að kenna hóptíma í Hreyfingu en er í fullu starfi sem kennari við Valhúsaskóla. Ég var þar sjálfur sem krakki og nú eigum við þrjá drengi sem hafa alist upp hér. Við tengjumst því Nesinu ágætlega. “
Þorsteinn var mikið í íþróttum. Bæði fótbolta og handbolta með KR. Hann segist hafa fengist við eitt og annað í gegnum tíðina. Bæði tengt íþróttum og hreyfingu en einnig tekið virkan þátt í ferðamálum. “Við hjónin stofnuðum til dæmis líkamsræktarstöðina Þokkabót í Frostaskjólinu sem við seldum fjórum árum síðar. En um einu ári eftir að við komum henni á fót fór ég í ferðamálin. Ég hóf störf sem markaðsstjóri hjá Samvinnuferðum 1996 hjá Helga Jóhannssyni þeim mæta manni sem fór allt of snemma. Við Helgi urðum miklar mátar og stofnuðum Sumarferðir saman 2003. Hann var hugsjónamaður, alþýðlegur og vildi að sem flestir gætu ferðast. Það var mjög lærdómsríkt að vinna með honum. Svo keypum við Úrval Útsýn og ég varð framkvæmdastjóri þar.”
Ferðaáhuginn á rætur í íþróttunum
Frá Samvinnuferðum og Úrval Útsýn lá leið Þorsteins til Icelandair. Hann gerðist sölustjóri fyrir Svíþjóð, svo svæðisstjóri í Bretlandi og Mið Evrópu. Síðar einnig Norður Ameríku. “Með því fékk ég að kynnast öllu leiðakerfi félagsins úti á erlendu mörkuðunum. Þetta var kraftmikið og skemmtilegt umhverfi að starfa í. Flugið byggir á stöðugum breytingum. Ég hef stundum spurt mig af hverju ég leiddist út á þessa braut. Ég held að það eigi rætur í uppeldinu í íþróttunum. Það er ekki ósvipað að vera með rekstur í ferðageiranum og íþróttalið. Það þarf að undirbúa hvert tímabil og það geta oft verið miklar breytingar, sem oft byggja á því hvað andstæðingurinn gerir og einnig ytri aðstæðum. Í ferðamálunum skiptir krónan miklu máli. Mikil áhætta er í ferðageiranum þótt ekki þyrfti að burðast með krónuna á bakinu. Þennan örsmáa og óstöðuga gjaldmiðil sem getur sveiflast og breytt stærðum fram og til baka. Hún hefur gríðarleg áhrif. Eftir störf hjá Icelandair náði ég tæpu ári sem sölustjóri hjá WOW air. Það var virkilega gaman að koma þar inn, virkilega fjörugur vinnustaður svo ekki sé meira sagt. Ferðaiðnaðurinn er mjög líflegur og skemmtilegur.”
Fór að selja tryggingar en ferðageirinn togaði í
Þegar flugið tók enda hvað gerðist þá. “Það er gaman að segja frá því að ég fór í Vörð og varð sölustjóri þar um tíma. Fór að selja tryggingar. Það var góður lærdómur. Vörður er frábærlega vel rekið fyrirtæki, gott starfsfólk og góður starfsandi. Svo fékk ég boð um að koma aftur í ferðageirann. Það var frá Iceland Travel, fyrirtæki sem starfað hefur við að fá erlenda ferðamenn til landsins. Þá fann ég vel hversu ferðabakterían er föst í mér. Ég tók því boði og er þar í dag að fást við skemmtileg verkefni.”
Þarf að móta stefnu í ferðaþjónustu
Eftir þau áföll sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir. Fall WOW air og síðan heimsfaraldurinn sem stöðvaði nær öll ferðalög um tíma. Verður hún nokkurn tíma aftur eins. Þorsteinn segir að ef til vill verði hún ekki eins en hún eigi marga möguleika. “Ferðaþjónustan hefur verið ein af stoðum efnahagslífsins í landinu. Málið snýst um hvaða innviði við viljum byggja upp. Hvernig ferðaþjónustu við viljum skapa og hafa. Ísland hefur náð að skila af sér góðri upplifun. Það hefur búið til þann vöxt sem við höfum upplifað og á því þarf að byggja. Ferðaþjónustan fór svolítið úr böndunum. Óx mjög hratt án þess að hugað væri nægilega vel að innviðunum. En þar kemur líka vandamál sem er ef til vill ekki auðleyst. Það er íslenska eðlið. Við erum svo sjálfstæð. Ísland byggist í grunninn upp á því að hingað komu smákóngar sem voru að flýja undir einni kórónu í samfélagi þeirra. Við erum örugglega með í grunninn ákveðið blóð sem kallar á sjálfstæði. Þess vegna er erfitt að gera okkur fastar skorður og við teljum okkur geta “reddað” hlutunum. En samt sem áður tel ég að marka verði ákveðna stefnu. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvernig við viljum sjá ferðamannalandið Ísland líta út eftir áratug eða jafnvel tvo þannig að við getum farið að taka stóru ákvarðanirnar í þessum mikilvæga málaflokki.”