Jákvæðar viðtökur hafa hjálpað mér
Vaðfuglar vaða
í vatni og sjó
Til að ná í æti.
Þá er gott að hafa langa fætur,
langan háls og langt nef.
Þannig tengir Árni Árnason Hafstað vaðfugla við bókstafinn V í nýútkominni bók sinni Stafróf fuglanna. Í bókinni tengir hann bókstafi í íslenska stafrófinu við tiltekinn fugl og birtir myndir af fuglum við hvern texta. Árni hefur stundað fuglaljósmyndun um langt skeið meðfram öðrum störfum störfum. Útgáfumálum, þýðingum og kennslu. Um lundann hefur hann þetta að segja.
Lundi er með litríkt nef.
Lundi flýgur hratt
Og syndir líka hratt i kafi.
Hann veiðir mörg síli
Í hverri veiðiferð.
Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er um að ræða kver ætlað yngstu kynslóðinni þar sem hægt er að kynnast stöfunum og íslensku fuglalífi á einu bretti. Þótt bókin sé einkum ætluð yngstu lesendunum ættu flestir að geta haft gaman af henni. Í henni er að finna ýmsan fróðleik. Ekki síst þann sem ljósmyndirnar bera í sér. Árni kveðst forfallinn áhugamaður um fugla og fuglamyndun hefur verið honum ástríða um árabil. Hann segir að sér hafi fundist vanta miðlun á þessum fallega þætti í íslenskri náttúru til barna og þá ekki síst yngri barna. „Ég leyfði mér að fara aðeins í kringum þetta. Við höfum ekki bókstaf fyrir hvern fugl. Ég notaði til dæmis orðið „vaxa“ fyrir X-ið og „nábýli“ fyrir N-ið og svo framvegis,“ útskýrir hann þegar hann er sestur með kaffibolla ásamt tíðindamanni á Iðu Zimsen bókakaffi neðst á Vesturgötunni.
„Í tengslum við kennslu mína hef ég skrifað ýmsar bækur fyrir krakkana sem ég er að kenna, svo það má segja að þetta sé rökrétt framhald af því,“ segir hann. „Dýr og fuglar eiga greiðan aðgang að hjörtum barna sem eru náttúrlega forvitin fyrir því sem er að gerast í umhverfi þeirra. Því þá ekki að taka þetta inn frá því að þau byrja að læra að lesa,“ segir Árni.
Hefur gefið út margar kennslubækur fyrir krakka
Árni Árnason Hafstað er Seltirningur að uppruna og gekk í Mýrarhúsaskóla. Hann kenndi síðar lengi við skólann. Kveðst hafa lokað hringnum þar. Kennt við sama skóla og hann var nemandi við á árum áður þegar hann ólst upp á Seltjarnarnesi. Hann hefur gefið út fjölmargar kennslubækur fyrir krakka og heggur að vissu leyti í þann knérunn með bókinni Stafróf fuglanna. Árni hefur um langt skeið stundað fuglaljósmyndun og hefur haldið sýningar á myndunum sínum.
Lokaði hringnum í Mýrarhúsaskóla
”Ég er fæddur í Reykjavík en foreldrar mínir fluttu á Nesið þegar ég var tveggja ára. Ég átti heima þar fram til tvítugs. Þar hófst skólaganga mín. Ég náði því að vera í Gamla Mýrarhúsaskóla. Ég var þar í fyrstu þremur bekkjunum. Þótt ég flytti af Seltjarnarnesi þá hef ég verið viðloðandi Vesturbæinn í Reykjavík nánast alla tíð. Í næsta nábýli við Nesið.” En svo fór Árni að kenna á Nesinu. Við gamla skólann sinn Mýrarhúsaskóla. ”Já, en það var frekar seint sem ég dróst inn í það. Ég byrjaði að kenna þar árið 2001 og er þar til 2019 eða í 18 ár þar til starfsferlinum lauk.” En hvernig stóð á því að Árni fór að kenna á Seltjarnarnesi. Hann segir að Regína Höskuldsdóttir hafi eiginlega dregið sig þangað. ”Ég hafði verið að vinna við útgáfustörf og hitti hana í samkvæmi. Hún tók mig með töngum og réði mig á staðnum. Ég hafði þá ekkert kennt í 16 ár en hana vantaði kennara og ég hugsaði að ég gæti látið á það reyna hvort ég hefði nokkru gleymt. Ég byrjaði að kenna um haustið og fann að kennslan hentaði mér mjög vel.”
Talsvert mál að koma sér upp nýjum búnaði
Árni hefur lengi verið með myndavélina á lofti. Starfaði meðal annars hjá fyrirtæki þar sem hann fékkst við ljósmyndavörur. Hann segir að þegar stafræna tæknin hafi rutt sér til rúms og filman horfið að mestu hafi orðið nokkurt hlé hjá sér. Talsvert mál hafi verið að koma sér upp nýjum búnaði með þeirri tækni og önnur verkefni hefðu setið fyrir um tíma. Þar á meðal uppeldisstörf enda börn sín þá verið á unga aldri. ”En svo kom að því að ég lét til skarar skríða og kom mér upp myndavélabúnaði með stafrænni tækni. Ég hef verið að taka starfrænar myndir síðustu tvo áratugina. Ég byrjaði með litlar vélar en fikraði mig svo áfram í átt til þess sem við getum kallað alvöru búnað.”
Öflug Nikon vél með aðdrætti
Árni er með öfluga Nikon vél meðferðis með langri aðdráttarlinsu. Nokkuð sem er nauðsynlegt þegar menn stunda fuglaljósmyndun af ástríðu. Hann segir þetta góðan búnað og hann sé ekki óviðráðanlegur þegar hugað er að kostnaði og ekki eins þungur og ætla mætti. Hann er ekki það þungur að ég þurfi þrífót undir myndavélina.” Árni kveðst hafa myndað ýmislegt áður en áhuginn á fuglaljósmyndun heltók hann eins og hann kemst að orði. ”Ég var að mynda flest annað en fugla. Svo fékk ég mér 400 millimetra linsu og með henni komst ég aðeins nær myndefninu. Og þá var ekki aftur snúið.” Árni kveðst alla tíð hafa verið heillaður af fuglum þótt hann hafi ekki farið að mynda þá fyrr en á seinni árum. ”Fuglarnir eru sérstök fyrirbæri í náttúrunni og þeir hafa alltaf heilla mig. Þegar ég fór að ná meiri tökum á fuglaljósmyndun varð þetta stöðugt áleitnara áhugamál. Atferli fugla segir okkur mikið. Öll ferðalög þeirra til og frá landinu sem ekki hefur tekist að skýra fyllilega. Til dæmis ratvísi þeirra um langar leiðir.
Yfir hafi. Og einnig mismunandi búsvæði þeirra eftir árstíðum. Hvað segir þeim fyrir um þennan lífsstíl og hvernig bera þeir sig að. Hvað stýrir þeim. Óskiljanlegt er hvernig litli fuglar geta komið hingað á eyju lang út í hafi ár eftir ár. Og koma aftur og aftur á sömu staðina. Þetta snýst um margt. Um fluggetuna. Hvernig súrefisupptöku þeirra er háttað og hvernig þeir geta nýtt þann næringarforða sem þeir hafa því ekki er um mikla fæðuöflun að ræða á löngu stöðugu flugi yfir úthafinu.” Árni tekur dæmi um spóann sem flýgur í einni lotu allt frá Vestur Afríku hingað til lands. Flugleið sem er álíka löng og héðan til Kanaríeyja. Árni segir að mönnum hafi ekki tekist að skilgreina hvað stýrir ratvísi þessara fugla. ”Þetta er leyndardómur sem gerir fuglafræðin meira spennandi en annars væri. Maður er endalaust að furða sig á tækni þessara fugla og getu.” Árni segir að fuglar hafi verið að setjast hér að á undanförnum árum sem ekki hafi haft hér búsvæði áður. Hann nefnir dæmi um svartþröstinn sem er sestur hér að og hefur gert sig gildandi. ”Hann þekktist ekki hér á landi fyrir 1990 nema sem einn og einn flækingur. Krossnefurinn er einnig sestur að hér og glókollur. Eflaust eiga fleiri fuglar eftir að koma hingað og setjast að.” Árni segir að þetta kunni að stafa að hlýnun. Hlýrra loftsala dragi fuglana til nýrra svæði. Annað dæmi um það sé lóan. Hún sé farin að hafa vetursetu hér á landi sem ekki hafi áður verið svo vitað sé. Ég veit ekki hvort þessi viðdvöl hennar hafi verið rannsökuð. Ég hef verið að mynda lóur og lóuhópa nú að undanförnu á Seltjarnarnesi. Nokkuð sem ekki sást hér áður fyrr. Þær sækja í fjörurnar til að finna sér æti. Hér áður fyrr voru hrafnar, mávar og dílaskarfur, auk æðarfugls og sendlings áberandi yfir vetrartímann en nú getur maður líka átt von á að rekast á tildru, stara, stelk og lóu í fjörum hér suðvestan lands yfir vetrarmánuðina.“
Jákvæðar viðtökur hafa hjálpað mér
Árni hefur ekki eingöngu verið að mynda fugla og kenna. Hann hefur einnig komið að skrifum og útgáfu bóka. ”Ég hef verið að fást við skriftir. Byrjaði um 1985. Þetta hefur komið svona sjálfkrafa með kennslunni. Ég hef einkum verið að fást við það sem getum kallað léttara efni. Einkum ætlað yngri lesendum og jafnvel þeim yngstu. Svona eins og Stafróf fuglanna ber með sér. Ég hef einkum kennt á miðstiginu í gegnum tíðina og einnig yngri krökkum. Ég hef alltaf fundið fyrir því að vantað lesefni til þess að fleyta þeim áfram. Heimatökin hafa verið hæg og sumt hefur skilað sér í bækur og annað ekki. Ég hef líka þýtt talsvert af efni fyrir þessa hópa. Ég hef reynt að hafa textann eins einfaldan og hægt er. Miða hann við lestrarkunnáttu þeirra yngstu. Eitt af því sem ég hef fundið er að börn eru forvitin um náttúruna og umhverfi sitt. Ég er með drög að handriti sem gæti orðið gott framhald af Stafrófi fuglanna. Ég er með mikið af myndum sem ég hef ekki notað.
Fínar myndir af tegundum sem urðu út undan við undirbúning hennar. Ég sé fyrir mér að hún muni ganga upp. Jákvæðar viðtökur hafa hjálpað mér við að halda áfram við útgáfumálin.“