Matthildur og Ingi Þór kjörin Íþróttamenn Seltjarnarness 2022
Kjör íþróttamanna Seltjarnarness 2022 í kvenna og karlaflokki fór fram fimmtudaginn 26. janúar síðastliðinn. Kjörið fór nú fram í 29. skiptið en það var fyrst haldið 1993.
Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttamenn úr hópi bæjarbúa.
Sjö tilnefningar bárust nefndinni þetta árið.
Jafnframt voru veitt verðlaun til landsliðsfólks, ungs og efnilegs íþróttafólks auk þess sem Íslands- og bikarmeistarar voru sérstaklega verðlaunaðir.
Ingi Þór Ólafson
Ingi Þór byrjaði að stunda golf árið 2015 þá 14 ára gamall hjá Nesklúbbnum á Seltjarnarnesi en haustið 2018 flutti hann sig yfir til Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Ingi Þór er afrekskylfingur og er talinn vera einn af efnilegustu kylfingum landsins þrátt fyrir að hafa einungis stundað golf í nokkur ár. Ingi er með +0,6 í forgjöf.
Ingi Þór endaði í 21. sæti á GSÍ mótaröðinni árið 2022.
Hann sigraði á alþjóðlegri mótaröð Glóbal Junior, Icelandic Junior Midnight Challenge í sumar og með þeim sigri komst hann á heimslista áhugamanna WAGR.
Ingi Þór tók þátt í fjölmörgum mótum á árinu 2022 og stóð sig mjög vel á meðal bestu kylfinga landsins.
Ingi stundar BSc-nám í íþróttafræðum við Háskólann í Reykjavík. Hann leggur mikla áherslu á heilbrigt líferni og að sinna æfingum til að gera sig að betri afrekskylfingi.
Matthildur Óskarsdóttir
Matthildur hefur stundað Kraftlyftingar í átta ár og náð að byggja sig upp í að vera alþjóðlegur keppandi í fremstu röð og áður stundaði hún fimleika með Gróttu.
Hún varð heimsmeistari ungmenna í klassískri bekkpressu í -84 kg. flokki þegar hún lyfti 125 kg. sem er einnig Íslandsmet í opnum flokki. Hún bar sigur úr bítum í sínum flokki í Norðurlandsmóti, Evrópumóti og heimsmeistaramóti í bekkpressu á árinu 2022.
Matthildur setti á árinu 34 Íslandsmet bæði í unglinga og fullorðins flokki, 2 evrópumet og 3 norðurlandamet.
Matthildur stundar nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, auk þess sem hún stundar fjallgöngur, skíði og hjólreiðar af krafti og er virkur meðlimur í björgunarsveit.