Eftirminnilegur einstaklingur í Vesturbænum
Kalt febrúarmiðdegi á Drafnarborg veturinn 1984. Faðir hafði fylgt fjögurra ára syni sínum í leikskólann. Á þeim tíma áttu ekki öll börn vist í leikskóla. Börn einstæðra foreldra og námsfólks sátu fyrir. Á fyrri hluta níunda áratugsins var þó farið að taka við börnum í hálfsdagspláss. Helst ef foreldrar þekktu einhvern í kerfinu sem gat liðkað fyrir. Bryndís leikskólastjóri tók vel á móti drengnum eins og ætíð. Á eftir spurði hún föðurinn hvort hann væri að flýta sér. Hvort hann hefði tíma til að eiga við sig orð. Komdu með mér inn á skrifstofu. Ég ætla að kynna þig fyrir vinkonu minni, sagði Bryndís.
Í dyrunum á litlu skrifstofunni hennar mætti komumaður vinkonunni. Þar var Auður Laxness. Hádegishléi föðurins lengdist óvænt því þarna varð til gott spjall og óvænt kynni við ekkju nóbelsskáldsins. Þannig var Bryndís. En hún var annað og meira. Fóstra eins og leikskólakonur hétu þá. Frumkvöðull á sínu sviði. Minnisstæð fyrir sérstætt útlit og sértaka persónuleika. Það halda sumir að ég sé finnsk, sagði hún eitt sinni þegar hún mætti og átti tal við vegfaranda á Kaplaskjólsveginum. Myndarlega var hennar minnst í minningarorðum. Orðlag sem henni fannst frekar niðrandi þegar hún var sjálf til umræðu því hún hafði alist upp við að tvíburasystur hennar sem lést á 16. aldursári væri sögð falleg en Bryndís myndarleg.
Fyrsti sérmenntaði leikskólakennarinn
Bryndís var fyrsti sérmenntaði leikskólakennarinn á Íslandi. Hún lauk leikskólakennaraprófi frá Fröbel Hojskole í Kaupmannahöfn vorið 1939. Hún rak leikskóla í Reykjavík 1941 til 1942 og veitti forstöðu sumardvalarheimili Rauða krossins í Stykkishólmi tvö sumur á stríðsárunum. Hún rak sitt eigið barnaheimili við Amtmannsstíg um nokkurt skeið. Hún var forstöðukona á vistheimilinu Vesturborg 1939 til 1940. Hún starfaði á ýmsum leikskólum Sumargjafar í Reykjavík 1942 til 1950 og var forstöðukona Drafnarborgar 1950 til 1992 að hún lét af störfum vegna aldurs.
Talaði aldrei niður til barna
Auður Laxness minntist vinkonu sinnar við fráfall hennar og sagði þá meðal annars í minningargrein að lífsstarf Bryndísar hafi verið að sinna börnum þar sem hún hafi átt fáa ef nokkra líka. Hún hafi aldrei talað niður til barna, talaði mikið við þau, mikið meira en við foreldrana og alltaf sem jafningja. Hún sagði Bryndísi hafa verið mannþekkjara meiri en aðra og það stóð allt þegar börnin uxu úr grasi. Alltaf hafi þeir eiginleikar komið fram sem Bryndís hafði sagt fyrir.
Fann upp á nýju á hverjum degi
Valgerður Þóra Benediktsson bókasafnsfræðingur og vinkona Bryndísar minntist hennar einnig. Hún staldraði meðal annars við Drafnarborg og eftirminnileg stjórnunarstörf hennar. Hún sagði Drafnarborg hafa verið skemmtilegan og tilbreytingarríkan vinnustað. Bryndís hafi alltaf fundið upp á einhverju nýju hvern einasta dag, að fara út að ganga, fara inn og lesa, borða, lita, leira, vefa, leika sér, út aftur. En ógleymanlegastar væru jólaskemmtanirnar á Drafnarborg. Þá skúruðum við og skreyttum gamla, góða húsið við Drafnarstíg.
Valdi úrvalsfólk til starfa
Bergur Felixson er lengi hélt utan um leikskóla Reykjavíkurborgar sagði um Bryndísi að hún hafi verið mjög eftirminnileg manneskja og átti sér þá hugsjón eina, að börnunum, sem hún hafði fóstrað, vegnaði vel. Hún mundi eftir sínu fólki og einn sterkur eiginleiki hennar hafi verið að hún valdi úrvalsfólk til starfa, sem átti sinn þátt í velgengni hennar.
Mannblendin og félagslynd
Bryndís var sterk og sjálfstæð kona og lifði lífinu eftir sínu eigin lagi. Hún fór eigin leiðir, hjólaði um bæinn þótt fáir sæjust þá á hjóli. Bryndís naut þess að vera frjáls og fara víða. Hún ferðaðist mikið allt sitt líf bæði hér á landi og erlendis. Hún var fróðleiksfús um framandi staði og menningu og vildi upplifa hlutina af eigin raun. Hún var mannblendin og félagslynd. Sem leikskólakennari og forstöðukona barnaheimilis um áratuga skeið þekkti hún marga og fylgdist vel með þeim börnum sem höfðu verið undir hennar verndarvæng. Hvers kyns hindranir voru ekki að hennar skapi og hún lét þær ekki hafa áhrif á fyrirætlanir sínar. Hún mætti í heimsóknir og fór eftir sinni eigin klukku og hafði alltaf ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum.
Ævistarfið var helgað börnum
Eldri og miðaldra Vesturbæingar muna margir eftir Bryndísi. Margir fleiri en þeir sem hún gætti í leikskólastarfnu. Hún bjó lengi í Skjólunum og ýmist gekk eða hjólaði upp eða niður Kaplaskjólsveginn til og frá vinnu. Bryndís tók bílpróf á efri fullorðinsárum. Kom framtak hennar mörgum í opna skjöldu en sýndi vel hvað var í hana spunnið. En börnin áttu hug hennar allan. Hún hafði ætíð mikinn áhuga á því sem börin voru að gera og spurði margs um leiki þeirra og nám. Enda má segja að ævistarf hennar hafi verið helgað börnum. Bryndís átti ekki börn sjálf en með sanni má segja að ótrúlegur fjöldi barna hafi átt Bryndísi. Stundum var því vellt fyrir sér hvort hún væri forspá. Hún taldi sig geta séð fyrir framtíð barnanna. Hvort hún las í persónur þeirra og hegðun eða haft kynni af foreldrum þeirra til viðmiðunar er ekki auðvelt að segja til um. Því hélt hún fyrir sig. Um forspárleika hennar verður ekki dæmt hér en þó munu vera ýmis dæmi um það sem hún lagði fyrir hafi gengið eftir. Hún fylgdist vel með sínum börum eftir að leikskólagöngu þeirra lauk og oft hafði hún á orði að eiginleikar mannanna kæmu fram strax í frumbernsku. Bryndís Zoëga var einn af eftirminnilegustu einstaklingum í Vesturbænum á síðari hluta liðinnar aldar.